Bartleby skrifari

„Ég kýs það síður,“ segir Bartleby skrifari hvað eftir annað í þessari sögu. Hann hefur ráðið sig til starfa á lögmannsstofu á Wall Street og þetta tilsvar hans hrindir af stað atburðarás sem er í senn skondin og sorgleg. Um leið vekur hún grundvallarspurningar um samskipti manna, spurningar sem þó fást engin endanleg svör við. Sagan hefur einnig verið rædd sem skáldleg yfirlýsing um borgaralega óhlýðni andspænis ofurvaldi samfélags sem stjórnast af lögmálum Wall Street.

Sagan af Bartleby kom fyrst út árið 1853 og er ásamt Moby Dick lífseigasta verk Hermans Melvilles. Hún telst lykilsaga í þróun smásagnaformsins vegna þess að þar koma fram persónur sem líkjast raunverulegu fólki en áður líktust sögupersónur gjarnan goðsagnaverum.

Sagan birtist hér í tvímála útgáfu á íslensku og ensku, með eftirmála þar sem fjallað er bæði um söguna og þýðinguna. Einnig fylgja ýmis umhugsunarefni fyrir lesandann sem gætu nýst við kennslu í ensku, bókmenntum og ritlist.

Þetta er fyrsta bókin í tvímála ritröð Þýðingaseturs Háskóla Íslands með klassískum textum í aðgengilegu formi fyrir nemendur og bókmenntaunnendur. Ritstjóri raðarinnar er Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

 

Ritdómur

Jóhann Helgi Heiðdal:

Frumspekileg tragikómedía, trúarleg samfélagsgagnrýni og absúrdismi (bara svo eitthvað sé nefnt)

BARTLEBY SKRIFARI

Eftir að hafa lokið við stórvirkið Moby-Dick; Or, The Whale sem kom út árið 1851, gaf Herman Melville í kjölfarið frá sér nokkrar stóráhugaverðar smásögur. Sumir fræðimenn vilja meina að í gegnum þær hafi hann að einhverju leyti fengið útrás fyrir gremju sína yfir viðtökunum, en þetta tímalausa meistaraverk heimsbókmenntanna, afrakstur gríðarlega krefjandi og erfiðrar vinnu sem Melville gaf allt sem hann átti í, fékk ekki nærri því þær viðtökur sem það átti skilið á sínum tíma og var höfundurinn skiljanlega vonsvikinn. Sannleikurinn var sá að Moby-Dick – sem er auðvitað algjörlega óflokkanleg – var svo ótrúlega frumleg og langt á undan sínum samtíma að gagnrýnendur þess tíma vissu einfaldlega ekkert hvað þær ættu að gera við þetta stórskrýtna verk. Á meðan á vinnunni stóð var Melville þó fullmeðvitaður um að það sem hann hafði í höndunum væri einstakt og mikilvægt.

Af þessum smásögum sem Melville skrifaði í kjölfarið er Bartleby the Scrivener, sem Rúnar Helgi Vignisson hefur þýtt sem Bartleby skrifari og Þýðingasetur Háskóla Íslands nýlega gefið út, líklega sú besta og áhugaverðasta.

Í sögunni kynnumst við ónefndum sögumanni, lögfræðingi sem rekur eigin lögfræðistofu með hjálp tveggja starfsmanna sem kallaðir eru þeim undarlegu nöfnum Kalkúnn, Naglbítur, ásamt sendisveininum Piparköku. Fyrri tveir eru skrifarar, en það starf felst í því að afrita mikilvæg skjöl og pappíra. En viðskiptin aukast hjá sögumanninum og því ákveður hann að ráða annan skrifara. Þannig kemur Bartleby inn í líf hans, en í fyrstu er hann fyrirmyndarstarfsmaður – þrátt fyrir að vera kannski einum of ófélagslyndur. En lögfræðingurinn veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar hann biður Bartleby einn daginn að hjálpa sér með annað verkefni og hann svarar „ég kýs það síður“. Hann heldur í fyrstu að þetta sé einangrað tilvik, en þegar Bartleby fer að svara öllum beiðnum með þessum orðum veit lögfræðingurinn ekki hvað hann á til bragðs að taka. Hann veltir fyrir sér að reka hann, en fellur þó frá því þar sem hver veit hvar Bartleby – sem honum líkar þó vel við þrátt fyrir allt – gæti endað (eða það telur hann sér trú um, þótt það sé nokkuð ljóst að ástæðan er fyrst og fremst átakafælni hans). En þegar Bartleby hættir einnig að vinna vinnu sína, situr allan daginn í öðru herbergi og starir á vegg og svarar öllum tilraunum til að hjálpa honum með „ég kýs það síður“ eða einhverjum útgáfum af því, þá ákveður lögfræðingurinn að skipa honum að fara. Því svarar hann þó einnig með sömu orðum. Lögfræðingurinn ákveður því að skipta um húsnæði til að losna við hann, en nýju eigendurnir hafa þó fljótt uppi á honum og grátbiðja hann um að hjálpa sér með Bartleby sem situr enn sem fastast í húsinu og neitar að hafa sig á brott. Bartleby er að lokum færður í fangelsi þar sem lögfræðingurinn heimsækir hann. Þar situr hann einnig og starir út í tómið allan daginn og neitar að gera nokkurn skapaðan hlut. Vill ekki einu sinni að borða – en á endanum deyr Bartleby því úr hungri.

Smásaga Melville er því vægast sagt furðuleg. Hún er almennt talin vera mikilvægur undanfari absúrdista bókmennta, en greina má sterk líkindi með frægum höfundum þeirrar hefðar á tuttugustu öld. Kafka fyrst og fremst, en einnig Camus, Vonnegut, o.fl. Hún er einnig álitin vera eitt mikilvægasta verk amerískrar smásagnahefðar og hefur löngum verið skyldulesning í skólum í Bandaríkjunum og fastagestur í söfnum yfir bestu smásögur Bandaríkjanna.

Ástæðan fyrir því hversu langlíf og áhrifamikil hún hefur reynst liggur kannski fyrst og fremst í þeirri stórfurðulegu ráðgátu sem lesandinn stendur uppi með. Hver er Bartleby? Hvað vakir fyrir honum? Hvað er Melville að reyna að segja nákvæmlega með þessari sögu? Hún streitist á móti öllum endanlegum túlkunum og skilningum; en hún er bæði mjög fyndin og mjög sorgleg, og Bartleby bæði aumkunarverður en á sama tíma göfugur. Eða hvorugt?

Hægt er því að túlka söguna á ótal mismunandi vegu. Fyrir það fyrsta væri einfaldlega hægt að lesa hana sem framsetningu á þunglyndi – en hegðun Bartlebys ber oft sterk einkenni þess geðsjúkdóms. Hún hefur einnig verið lesin frá sjálfsævisögulegu sjónarhorni, en þá er bent á að Melville hefði verið höfundur sem „kaus síður“ að fylgja stefnum og straumum bókmennta síns tíma og skrifa verk sem færu betur ofan í lesendur og seldust meira. Í staðinn skrifaði hann gríðarlega metnaðarfull og flókin verk sem reyndu að tjá oft á tíðum dökkan og óþægilegan (ásamt margræðnum og óljósum) sannleika um manninn og tilvistina – en þau féllu oft í grýttan jarðveg og náði Melville aldrei neinni alvöru frægð eða velgengni sem rithöfundur á meðan hann lifði. Þannig er Bartleby að einhverju leyti Melville sjálfur.

Það liggur auðvitað einnig beinast við að túlka hana á pólitískan hátt: sem andóf gegn ríkjandi gildum og  atferli, að synda gegn straumnum, einstaklingur sem neitar að fara eftir reglum samfélagsins, o.s.frv. Nú má telja fullvíst að Melville hafi verið undir a.m.k. einhverjum áhrifum frá frægu verki Henry David Thoreau, Civil Disobedience, sem hafði komið út rétt áður, árið 1849. Í því verki heldur hinn frægi heimspekingur og uppreisnarseggur því fram að einstaklingnum beri engin skylda til að fara eftir lögum sem stríða gegn samvisku hans – þvert á móti ber honum skylda til til að neita að gera það. Hann segist neita með öllu að viðurkenna ríkisvald sem einnig er ríkisvald yfir þrælum og háir glæpsamleg og siðlaus stríð gegn löndum eins og Mexíkó. Thoreau neitaði að borga skatta af þessum sökum eins og frægt er og endaði því í fangelsi.

Eins og þýðandinn bendir einnig á í eftirmála, þá er það heldur engin tilviljun að sagan gerist á Wall Street. Veggir eru mjög fyrirferðarmiklir í sögunni, og tákna m.a. mörkin milli Bartleby og samstarfsfélaga hans – sem og samfélagsins alls. Hversu gríðarlega aðskilinn og einangraður hann er. En með því að hafa sögusviðið Wall Street, sem á þeim tíma sem sagan er skrifuð líkt og nú á dögum, vekur upp hugmyndir um siðlaust fjármálabrask og græðgi hinna ríku, mætti ætla að Melville sé hér að reiða fram sterka samfélagsgagnrýni. Enda hefur Bartleby, með afstöðu sinni og hegðun, djúpstæð áhrif á sálarlíf sögumannsins. Bartleby fær hann til að sjá samfélagið frá öðru sjónarhorni og eftir þessa reynslu lítur út fyrir að hann sé orðinn að betri manneskju með meiri samkennd fyrir vikið. Í dag vekur lesturinn einnig óhjákvæmilega upp tengsl við fræga andófshreyfingu: Occupy Wall Street, en orðið occupy kemur oft fyrir í frumtextanum til að lýsa stöðu Bartleby á lögmannstofunni. Enda notaði hreyfingin orð Bartleby – I would prefer not to – sem slagorð.

Þrátt fyrir að allir þessir lestrar eru áhugaverðir og ekkert endilega rangir, þá tel ég þó að það sé eitthvað mun dýpra og flóknara í gangi í sögunni – eins og við er að búast af höfundi Moby-Dick. Því sú dökka frumspekilega sýn sem Melville reiðir þar fram er einmitt undir sterkum áhrifum, en á sama tíma mjög gagnrýnin á transcendentalista heimspeki Ralph Waldo Emersons, sem Thoreau aðhylltist auðvitað einnig og sést í verkum hans. Sú jákvæðni, jafnvel bjartsýni, sem finna má í verkum Thoreau og margra annarra transcendentalista –  ásamt ofureinstaklingshyggjunni auðvitað –  umbreytist í frumspekilega geðveiki Ahab í meðförum Melville.

Í Bartleby skrifari reiðir Melville fram persónu sem snýr baki við öll: öðru fólki, samfélaginu, eigin þægindum, sjálfsvirðingu og jafnvel næringu. Þessi ofur rótæka afstaða mætti lýsa sem vissri geðveiki sem á margt skylt með frægri geðveiki Ahab. En eins og að ferðalag Ahab í átt að ómögulegu og vonlausu takmarki sínu, þar sem hann lætur ekkert stoppa sig („I would strike the sun if it insulted me“ er ein eftirminnilegasta setning bókarinnar), gerir hann að skepnu sem er firrt öllu því sem mannlegt er og tekur á endanum einnig líf hans, er Bartleby á svipaðan hátt í einhvers konar sjálfseyðileggjandi ferðalagi þar sem hann tapar öllum mannlegum eiginleikum. Markmið Bartleby er óljóst, en uppreisn Ahab gegn frumspekilegum skilyrðum tilvistarinnar, veggjum hins sjáanlega og náttúrulega heims („Strike through the Mask!“), virðist vera skyld uppreisn Bartleby, nema hann fer í hina áttina. Hann viðurkennir ekki aðeins veggina, heldur styrkir þá og býr til eins marga og mögulegt er þar til það sem eftir stendur er persóna gersneydd allri mannlegri reisn sem hlýtur að vera í eins mikilli þjáningu og mögulegt er; félagslegri, sálfræðilegri, andlegri og á endanum líkamlegri. Þannig væri hægt að lesa Bartleby sem hryllingssögu einnig.

Sagan endar á því að sögupersónan kemst að því að Bartleby starfaði áður við að taka á móti, og eyða, dauðum bréfum. Sem sagt pósti þar sem viðtakandi er látinn. Leiðir hann að því líkur að þessi reynsla sé rótin að furðulegu afstöðu Bartleby, að hún hafi fyllt hann algjöru vonleysi. Sögumaðurinn sjálfur virðist þó hafa fengið nýja sýn á mannkynið eftir kynnin af Bartleby og endar sagan á eftirminnilegri upphrópun sem einnig er hægt að túlka á margan ólíkan hátt „Ó, Bartleby! O, mannkyn!“.

Hver svo sem endanlegi sannleikurinn um Bartleby (eða Ahab) er, þá er Bartleby skrifari stórmerkileg saga eins af stærstu og mikilvægustu rithöfundum bókmenntasögunnar. Hún er dularfull ráðgáta, en eins og þær margar ólíku túlkanir á henni sýna fram á, þá er hún á sama tíma rík auðlind áhugaverða heimspekilegra, trúarlegra, sálfræðilegra og félagslegra vangaveltna sem hafa ekki tapað neinu af áhrifamætti sínum í dag – settar fram í einstökum stíl Melvilles sem nær einhverju meistaralegu og fullkomnu jafnvægi þrátt fyrir allar þær ólíku stefnur og hugmyndir sem togast á í verkinu.

Þýðingin er hluti af ritröð Þýðingaseturs Háskóla Íslands þar sem frumtextinn er birtur við hliðiná. Slík nálgun hefur sýna kosti. Það er auðvitað áhugavert að geta borið textana þannig saman og það er alltaf betra að eiga bæði útgáfurnar heldur en aðeins aðra hvora. Það er þó spurning hvort þetta trufli lesturinn hjá einhverjum, en ef maður getur ekki stillt sig um að vera sífellt að fara fram og tilbaka og bera saman þá getur það ekki annað en dregið úr upplifuninni – en verk Melville eru full af táknrænum merkingum og lúmskum vísunum og smáatriðum sem krefjast mjög náins lesturs og einbeitningar. Það truflaði mig svo sem ekkert, en ég velti fyrir mér hvort slík útgáfa sé meira fyrir fræðimenn en almenna lesendur sem myndu kannski frekar vilja geta lesið söguna á hefðbundin hátt? Spyr sá sem ekki veit.

Þýðingin sjálf er svo til fyrirmyndar eftir því sem ég fæ best séð. Ég fór þó ekki í neinn nákvæman samanburð á öllu verkinu, lét valda kafla duga. Eins og þýðandinn ræðir í eftirmálanum, þá eru ýmis vandamál sem staðið er frammi fyrir og mikilvægar ákvarðanir sem þýðandi þarf að taka þegar svo gamall texti er þýddur. En mér fannst nálgunin heppnast mjög vel. Rúnar Helgi nær að yfirfæra stíl og mál Melville, sérstaklega einstakan húmorinn, á íslensku á frábæran hátt. Fyrirfram hefði ég talið að það gæti aldrei verið annað en útvötnun, bjögun eða jafnvel afskræming á snilld frumtextans. Fáir eru amerískari en Melville. Kannski svipað og að lesa Halldór Laxness á ensku. Eða Goethe á einhverju öðru tungumáli en þýsku. Því hef ég ekki lagt í Moby-Dick þýðinguna, en það er verk sem ég get hreinlega ekki ímyndað mér hvernig er hægt að þýða (þýðingin er eflaust mjög vel og vandvirknislega unnin, er ekki að fullyrða neitt um gæði hennar þar sem ég hef ekki hugmynd um þau). En þessi þýðing kom mér allavega mjög skemmtilega á óvart. Bartleby the Scrivener er þó auðvitað mun einfaldari verk. En ég væri spenntur að sjá Rúnar Helga taka Billy Budd eða The Confidence-Man: The Masquerade.

Annars er það auðvitað alltaf fagnaðarefni þegar klassísk verk heimsbókmenntanna eru þýdd. Þá einna helst auðvitað frægu stórvirkin. En það er einnig mikil ánægja fólgin í að sjá minna þekkt verk eftir stærstu höfundana vera þýdd sem leiðir þá vonandi til aukins áhuga á þeim. Í tilfelli Melville er allavega til mjög margt að uppgötva.

Herman Melville: Ég kýs það síður

IMG_4079

Bókin Bartleby skrifari eftir Herman Melville lætur ekki mikið fyrir sér fara. Það var ein ástæðan fyrir að ég valdi hana þegar ég rakst á hana í Hljóðbókasafninu. Ein ástæðan var að hún er lesin af Guðmundi S. Brynjólfssyni. Allt sem hann les lifnar við. Hún tekur 2 tíma og 40 mínútur í afspilun. Bókin kom út 1853 og ekki spillti að komast að því að hún er eftir heimsfrægan rithöfund. Flest fólk kannast við söguna um Moby Dick, ef ekki sem bók, þá sem kvikmynd. Ég sem er skammarlega illa að mér um bandarískar bókmenntir hafði ekki kveikt á nafninu.

Í sögunni segir af samskiptum lögmanns á lögmannsskrifstofu í Wall Sreet við skrifara sinn. Á þessum tíma, fyrir daga ritvéla og tölva, voru ritarar afar mikilvægir. Það er lögmaðurinn sem er sögumaður og hann gefur sér góðan tíma til að koma sér að efninu. Hann lýsir lífinu á lögmannsskrifstofunni og segir frá hinum riturunum. Nú hafa umsvif aukist svo að hann þarf að bæta við ritara. Hann velur hann sjálfur og í fyrstu gengur allt vel. Ritarinn kann vel til verka. Svo fer að bera á því að ritarinn gerir ekki það sem honum er falið og svarar fyrirmælum með “Ég kýs það síður.” Á endanum gerir hann alls ekki neitt og lögmaðurinn kemst að því að hann býr á skrifstofunni. Lögmaðurinn sem lýsir sjálfum sér sem góðum og vel meinandi. Hann veit að ef hann segir honum upp, endar hann á götunni. Hann býður honum ýmsa álitlega kosti, en fær stöðugt sama svarið,”Ég kýs það síður.”

Að lokum tekur hann þó rögg á sig og lætur hann fara, mest fyrir ytri þrýsting. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra en kjarni hennar eru innri átök lögmannsins, þegar hann þarf að horfast í augu við vanmátt sinn.

Þessi bók skilur mann eftir með ótal spurningar. Lesandinn verður engu nær um hvers konar maður Bartleby er eða hvað lögmaðurinn hefði getað gert í stöðunni. Það styrkir mig í afstöðu minni um að bækur eru til að kveikja spurningar en ekki til að svara þeim. Þessi bók er hrein perla. Og það sem merkilegt er, er að hún gæti alveg eins átt við daginn í dag. Það er enn jafn erfitt að hafa fátæktina inn á sér og horfa upp á að geta engu breytt. Eða er það svo? Þarf maður e.t.v. að breyta einhverju hjá sjálfum sér?

Er það tilviljun að sögunni er fundinn staður í Wall Street, þar sem peningahjarta kapítalismans slær? Nei, ég held að það sé ekki tilviljun, allt í þessari bók er þrauthugsað. Þetta er bók sem maður getur lesið aftur og aftur, ekki vegna þess að maður hafi gleymt, heldur vegna þess að maður finnur stöðugt eitthvað nýtt. Ef ekki í bókinni, þá í sínum eigin viðbrögðum.

Bókin er þýdd af Rúnari Helga Vignissyni og óþarft að taka það fram að þar er vandað til verka. Auk þess skrifar Rúnar Helgi eftirmála um þýðinguna, ábendingar til lesanda og stingur upp á rilistarverkefnum fyrir þá sem vilja spreyta sig á þeim vettvangi. Þetta er bók sem lifir, af því hún fær mann til að leita svara við spurningum, sem aldrei verður svarað til fulls.

Bergþóra Gísladóttir

Frumspekileg tragikómedía, trúarleg samfélagsgagnrýni og absúrdismi (bara svo eitthvað sé nefnt)