Sem ég lá fyrir dauðanum eftir bandaríska rithöfundinn William Faulkner í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, sem einnig ritar eftirmála. Faulkner hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1949.
Addie Bundren liggur fyrir dauðanum í herbergi sínu. Fyrir utan gluggann hamast elsti sonur hennar við að smíða kistu handa henni. Til að hefna sín á manni sínum hefur Addie tekið loforð af honum um að fara með sig til Jefferson, um 40 mílna leið, og jarða sig í fjölskyldugrafreitnum þegar hún gefur upp öndina.
Sem ég lá fyrir dauðanum er saga af örlagaríku ferðalagi fjölskyldunnar um sveitir Mississippi með lík ættmóðurinnar. Fjölskyldumeðlimir og aðrir sem þau mæta á leiðinni skiptast á um að segja söguna. Úr verður skáldsaga sem er afar óvenjuleg að gerð og er í senn harmræn og spaugileg. Hún hefur löngum verið talin með merkustu skáldverkum 20. aldar.
William Faulkner (1897–1962) þykir einn sérstæðasti og magnaðasti höfundur sinnar tíðar. Hann bjó lengstum í smábænum Oxford í Mississippi og lét eitt sinn svo um mælt að honum mundi ekki endast ævin til að gera þeim skika heimsins skil í verkum sínum.
Tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna.
Útgefandi: Uppheimar 2013.
Úr ritdómum
„Þýðing Rúnars Helga Vignissonar, dósents í ritlist við Hugvísindsvið Háskóla Íslands, á skáldsögunni Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner hefur að undanförnu hlotið einróma lof gagnrýnenda. Skáldsagan er eitt af höfuðverkum Faulkners en áður hefur Rúnar Helgi þýtt bók Faulkners, Ljós í ágúst.
Rúnar Helgi er tilnefndur til íslensku þýðingaverðlaunanna. Í umsögn dómnefndar segir: ,,Í bókinni beitir Faulkner tilraunakenndum stílbrögðum þar sem fimmtán sjónarhorn birtast í fimmtíu og níu brotum en með því nær Faulkner að bregða ljósi á hjörtu og hugsanir þeirra sem segja frá. Rúnar Helgi Vignisson nær að snúa þessum knappa og tálgaða en þó flæðandi og síkvika stíl á tilgerðarlausa og auðuga íslensku.“
Einar Falur Ingólfsson, bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins, segir afrakstur þýðingarinnar framúrskarandi. Blessunarlega hafi Rúnar Helgi tekið verkið alla leið og sé frumtextanum trúr án þess að íslenskan verði á neinn hátt ankannaleg. Einar vitnar í eftirmála bókarinnar sem Rúnar Helgi ritar en þar er m.a. fjallað um einkenni fjölbreytilegs og flæðandi frumtextans og þau vandamál sem þýðandinn þarf að takast á við, vandamál sem hafa fengið suma þýðendur til að einfalda textann og jafnvel sleppa hlutum hans.
Hlín Agnarsdóttir skrifar í DV að á hverju ári birtist nýjar þýðingar á heimsbókmenntunum sem auðgi ekki aðeins andann og bæti við þekkingu heldur dýpki jafnframt sambandið við eigin tungu. Ein þessara þýðinga í ár sé Sem ég lá fyrir dauðanum. Hún ritar meðal annars: „Lesandinn er staddur inni í sögunni og sér hana frá mörgum sjónarhornum eins og í þrívídd. Hann heyrir hljóðin í náttúrunni, finnur lyktina af fólkinu, kynnist hugsunarhætti þess, skaphöfn og afstöðu til hinnar deyjandi (eða dánu) sem allt hverfist um. Sagan og skáldskapurinn sem verður til með þessum hætti er allt í senn „grafalvarleg, spaugileg og átakanleg“ svo vitnað sé í eftirmála þýðandans, Rúnars Helga Vignissonar.“
Ásdís Sigmundsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, segir stíl Faulkners sérstakan og það hafi ekki verið auðvelt verk að gera texta hans þannig úr garði að íslenskir lesendur gætu notið bæði stílsins og sögunnar. Þýðandinn þurfi að finna jafnvægi á milli þess að gera merkingu textans skiljanlegan fyrir lesendum og halda í framandi eiginleika hans: ,,Tilfinning fyrir því hvar jafnvægispunkturinn er, er vandmeðfarinn fyrir rithöfund sem skrifar á sínu móðurmáli og inn í sinn eigin menningarheim en það er mun erfiðara að leika það eftir með texta annars og fyrir menningarheim sem er ólíkur þeim sem textinn er sprottinn úr. En Rúnari Helga tekst þetta einstaklega vel, þó alltaf megi deila um einstaka lausnir eða ákvarðanir. Persónurnar eru trúverðugar á íslensku, það íslenska málsnið sem Rúnar Helgi gefur þeim tekst að endurspegla persónuleika þeirra og aðstæður og þá er a.m.k. hálfur björninn unninn.“
Eins og segir á heimasíðu Uppheima, útgefanda bókarinnar, er Sem ég lá fyrir dauðanum saga af örlagaríku ferðalagi fjölskyldu um sveitir Mississippi með lík ættmóðurinnar. Fjölskyldumeðlimir og aðrir sem þau mæta á leiðinni skiptast á um að segja söguna. Úr verður skáldsaga sem er afar óvenjuleg að gerð og er í senn harmræn og spaugileg. Hún hefur löngum verið talin með merkustu skáldverkum 20. aldar. William Faulkner þykir einn sérstæðasti og magnaðasti höfundur sinnar tíðar. Hann bjó lengstum í smábænum Oxford í Mississippi og hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1949.“
(Af vef Háskóla Íslands: http://www.hi.is/frettir/thyding_runars_helga_a_faulkner_faer_lofsamlega_doma)