Þriðja bindi Smásagna heimsins er komið út. Það er helgað Asíu og Eyjaálfu. Í því eru 20 sögur frá jafn mörgum löndum en markmið ritraðarinnar er að birta góðar sögur frá eins mörgum löndum og kostur er.
Asía og Eyjaálfa spanna marga menningarheima eins og bindið endurspeglar. Þar getur að líta smásögur allt frá arabísku og persnesku ríkjunum í vestri, til Indlands og Japans í austri og Ástralíu og Nýja-Sjálands í suðri. Frá sumum þeirra landa sem eiga fulltrúa í bókinni berast sjaldan sögur til Íslands. Má þar nefna Kúveit, Íran, Norður-Kóreu, Malasíu, Pakistan, Víetnam og Filippseyjar. Stundum er fengist við stóra og átakanlega atburði í þessum sögum, s.s. þjóðarmorð og hreinsanir, en þess á milli sjáum við höfundana glíma við hversdagslegan veruleika.
Sumir vilja helst sjá þekkta höfunda í svona safni. Mér finnst hins vegar enn skemmtilegra þegar maður finnur frábæra höfunda sem enginn hér hefur heyrt um og þá ekki síst frá löndum sem sjaldan eiga fulltrúa á íslenskum bókamarkaði. Hér hefur hvort tveggja gerst og fyrir vikið hefur heimurinn stækkað. Okkur hefur að mínu viti tekist að finna spennandi sögur frá öllum þeim löndum sem eiga fulltrúa í safninu: Líbanon, Ísrael, Sýrlandi, Kúveit, Tyrklandi, Íran, Indlandi, Pakistan, Indónesíu, Malasíu, Singapúr, Víetnam, Kína, Norður-Kóreu, Suður-Kóreu, Taílandi, Japan, Filippsseyjum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Margar sagnanna voru þýddar úr frummáli, s.s. arabísku, taílensku, ensku, kóresku og japönsku, aðrar hafa verið þýddar úr millimáli en íslenska þýðingin síðan borin saman við frumtexta. Alls koma tólf þýðendur við sögu: Dagbjört Gunnarsdóttir þýddi úr japönsku, Jón Egill Eyþórsson þýddi úr kóresku, Sindri Guðjónsson þýddi úr arabísku, Hjörleifur Rafn Jónsson þýddi úr taílensku. Úr ensku þýddu Freyja Auðunsdóttir og Þórir Jónsson Hraundal gátaði, Heiður Agnes Björnsdóttir, Ingunn Snædal, Lárus Jón Guðmundsson, þar sem Xinyu Zhang gátaði, Steingrímur Karl Teague, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir og fyrir hana gátaði Anh-Dao Tran víetnömsku þýðinguna, og ofanritaður en Ali Amoushahi og Svanhildur Konráðsdóttir gátuðu með mér írönsku söguna.
Í útgáfuhófi 23. október klykkti ég út með þessum orðum: „Með því að flytja bókmenntir frá öllum heimshornum yfir á íslensku verðum við þátttakendur í heimsmenningunni. Við getum þá notið þessara gersema annarra landa án þeirrar tálmunar og truflunar sem tillært tungumál hefur í för með sér. Og þar sem smásagan er oft mjög nákomin höfundunum, hún er iðulega sjálfsprottið viðbragð við áhrifaríkri ef ekki átakanlegri reynslu, fáum við í gegnum hana huglæga innsýn í þessa menningarheima.“
Ritstjórar auk mín eru Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir.
U M S A G N I R
METNAÐARFULL ÚTGÁFA HEIMSBÓKMENNTA Í SMÁSÖGUFORMI
Nýtt bindi af Smásögum heimsins, tileinkað Asíu og Eyjaálfu, fer með lesandann um fjölbreytt lönd og menningarheima og veitir innsýn í líf fólks á þessum fjarlægu slóðum í gegnum tuttugu smásögur. Þar af eru tíu karlrithöfundar og tíu kvenrithöfundar svo kynjahlutfallið í heftinu er hnífjafnt. Bindið er hið þriðja af fimm í ritröðinni. Áður hafa komið út Smásögur heimsins með sögum frá Norður-Ameríku og Rómönsku-Ameríku og hyggja ritstjórar á útgáfu á smásögum frá Evrópu og Afríku á næstu árum. Styrkleiki heftisins er sú breidd sem birtist í sögunum sem hér hafa verið valdar sem og inngangskaflarnir sem kynna höfundana til leiks.
Margir þýðendur koma að verkinu enda um að ræða mörg tungumál sem þýtt er úr. Ritstjórar ritraðarinnar leitast við að finna þýðendur til að þýða úr frummálum. Þegar um er að ræða sögur sem hafa áður komið út á íslensku eru þær þýðingarnar annað hvort endurskoðaðar eða gerð ný þýðing. Það er því metnaður lagður í þýðingarnar í ritröðinni. Í þessu tiltekna bindi eru langflestar sögurnar að koma út í fyrsta skipti á íslensku. Fljótt á litið virðast aðeins þrjár sögur hafi birst hér á landi áður: „Sæla“ eftir hina nýsjálensku Katherine Mansfield, „Amerískir draumar“ ástralska höfundarins Peter Carey og „Aldjefli“ eftir norður-kóreskan höfund sem notar dulnefnið Bandi. Smásagnasafn þess síðastnefnda, kom út í heild sinni fyrr á þessu ári en í annarri þýðingu. Til viðbótar Mansfield, Carey og Bandi hafa tveir af höfundunum fengið þýdd verk á íslensku, en það eru önnur skáldverk en birtast í Smásögum heimsins. Það eru kínverski Nóbelsverðlaunahafinn Mo Yan og Eka Kurniawan frá Indónesíu. Í þessari tölfræði endurspeglast skýrt hvernig þessi ritröð víkkar íslenskan bókmenntaheim. Safnið gerir íslenskum lesendum kleift að lesa nýja höfunda frá ólíkum menningarheimum.
Breidd bókinnar birtist á ýmsum sviðum. Áðurnefnd „Sæla“ er fyrsta sagan í bókinni og einnig sú elsta, frá 1918. Þessi móderníska smásaga Katherine Mansfield snertir meðal annars á samkynhneigð. Síðan er lesandinn leiddur áfram í tímaröð í gegnum árhundraðið sem bókin miðast við. Á meðan fer safnið með lesandann um víðan völl landafræðilega séð. Asía er mjög vítt flæmi svo í bókinni er að finna sögur frá arabaríkjunum og Tyrklandi auk þeirra landa sem okkur á Íslandi er tamara að hugsa um að tilheyri Asíu, eins og Kína, Japan, Filippseyjar, Víetnam, Taíland o.s.frv. Svo bætist Eyjaálfan við og eykur enn fjölbreytileika safnsins. Sögurnar varpa oft ljósi á pólitík og sögu, til dæmis fjalla sögurnar frá Pakistan og Indlandi báðar um það þegar „Pakistan og Indland klofnuðu í tvennt“ (bls. 43) eins og það er orðað í upphafi smásögunnar „Toba Tek Singh“ eftir Saadat Hasan Manto. Því miður er ekki að finna í bindinu sögu frá Palestínu en ritstjórar gera grein fyrir því í inngangi að palestínskir höfundar hafi hafnað þátttöku í bókinni þar sem ísraelskum höfundi séu þar gerð skil. Margar sögurnar í safninu afhjúpa átök, kúgun og valdastrúktúra á áhrifamikinn hátt. Sem dæmi má nefna áðurnefnda sögu Bandis þar sem eldri kona hittir óvænt leiðtoga Norður-Kóreu og gjáin á milli leiðtogans og þegna hans verður óþægilega áþreifanleg.
Margar af áhrifaríkustu sögunum fjalla einmitt um daglegt líf og hversdagslega atburði sem eru settir fram í stærra samhengi. Í tilraunakenndu smásögunni „Spegillinn“ eftir tyrkneska höfundinn Leylâ Erbil flæða hugsanir sögumannsins áfram. Í sögunni stingur ofbeldi ítrekað upp kollinum sem og ýmsir pólitískir atburðir einsog uppreisn Kúrda. Annað dæmi er „Myndin af Jasmín“ eftir hina líbönsku Hanan Al-Shaykh en hún fjallar um par sem hefur flúið borgarastríð og dvelur á heimili ókunnugra. Ófriður ríkir fyrir utan heimilið en aðalpersóna sögunnar, sem er karlmaður, fókusar á þráhyggjukenndan hátt á húsfreyjuna sem er fjarverandi þangað til í síðustu línum sögunnar. Samskipti inni á og í kringum heimilið eru einnig í brennidepli hjá hinni írönsku Fariba Vafi í sögunni „Úr skorðum, úr fjötrum“. Þar segir Vafi frá grasekkju sem er ásótt af leigusala sínum og þó að ekki sé um beint ofbeldi að ræða þá fer konan að breyta hegðun sinni til þess að forðast þessi kúgandi samskipti. Ein áhrifaríkasta smásagan „Falið ljós hlutanna“ er eftir Mai Al-Nakib frá Kúveit. Hún skrifar í sögunni um endurkomu eiginkonu og móður inn á heimilið sem hún var numin á brott frá eftir tíu ár í haldi. Fjölskyldan reynir að skilja hvað hún hefur gengið í gegnum en það er lesandinn sem hefur heilsteyptustu myndina af atburðum þar sem skipt er á milli sjónarhorns konunnar og fjölskyldu hennar í sögunni.
Góð handleiðsla er fólgin í stuttum inngangsköflum sem fylgja hverri sögu. Sögurnar eru auðsýnilega afar fjölbreyttar og eru þessir kynningartextar lesandanum því dýrmætur leiðarvísir í gegnum það ferðalag sem falið er í lestri bókarinnar. Höfundur sögunnar er kynntur og sagan sett í samhengi við samfélagslegar aðstæður landsins og tímabilsins sem hún tilheyrir. Margir höfundar koma að kynningartextunum og tekst þeim að auðga lestur sagnanna í heftinu töluvert. Stundum leyfa höfundar kynningatextanna sér að draga líkingar á milli söguefnisins og íslensks samtíma. Í því samhengi er sérstaklega eftirminnileg kynningin á Peter Carey. Í smásögu Carey, „Amerískir draumar“, verða bæjarbúar að taka þátt í hálfgerðu leikriti fyrir ferðamenn. Einn af bæjarbúum gerir eftirmynd af bænum og íbúum hans sem er fyrst afhjúpuð eftir að listamaðurinn er látinn. Þessi eftirmynd verður til þess að bærinn verður að ferðamannastað en og smám saman festast bæjarbúar í gömlum hlutverkum til þess að halda áhuga ferðamannanna. Á sama tíma verða ferðamennirnir sífellt fyrir vonbrigðum því bæjarbúar breytast og eldast en eftirmyndin ekki. Rúnar Helgi Vignisson tengir í inngangskafla sínum atburði sögunnar við ferðamannastrauminn sem hefur skollið á Íslendingum síðasta áratug. Þannig er þessi ástralska smásaga, sem kom fyrst út árið 1974, sett í samhengi sem er kunnuglegt fyrir Íslendinga í dag.
Sem bókmenntagrein er smásagan sérlega vel til þess fallin að færa lesendum heimsbókmenntir því með henni er hægt að safna saman heilum textum í fjölbreytt safn í hæfilegri lengd. Sumir höfundanna tilheyra fleiri en einum heimi; þrátt fyrir að uppruni þeirra sé í þeim löndum sem þema bindisins nær yfir þá hafa sumir einnig átt annað heimili í öðrum heimsálfum, sér í lagi Evrópu eða Norður-Ameríku, þangað sem Íslendingum er tamara að sækja heimsbókmenntir í íslenskum þýðingum. Ritstjórum Smásagna heimsins hefur í þessu hefti tekist að færa íslenskum lesendum fjölbreyttar smásögur sem eiga við okkur erindi þvert á heimsálfur.
Elín Björk Jóhannsdóttir, Bókmenntavefnum: https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/smasogur-heimsins-asia-og-eyjaalfa
SÖGURNAR FYLLA LESANDANN SÆLU
Sögurnar fylla lesandann sælu sem sprettur af dýpt og fegurð orðanna. Þær eru spegill þar sem veröldin birtist í öðru ljósi en oft áður. Lest(r)arferð þar sem numið er reglulega staðar en á hverri stöð er samfélag ólíkt því síðasta. Tígrisdýr í búri birtist á einum stað og breytist í þjóðfélagsþegn í borg. Á öðrum stað flýtur lík stúlku framhjá vatnsmelónubát og ræðarinn finnur í hjarta sínu til hryggðar yfir mannlegu hlutskipti.
Bókin Smásögur heimsins – Asía og Eyjaálfa er full af smásögum frá 20 löndum. Sú elsta er dásamleg saga frá 1918 eftir Katherine Mansfield og sú yngsta frá 2014 eftir Stehpahnie Ye og gerist á flugvelli. Allar veita þær innsýn í menningu Nýja-Sjálands, Indlands, Japan, Kúveit, Indónesíu, Malasíu, Tyrklands, Ástralíu, Pakistan, Vietnam, Singapúr, Íran, Kína, Norður-Kóreu, Ísrael, Suður-Kóreu, Líbanon, Filippseyja, Tailands og Sýrlands.
Það er gjöf að fá þessa bók í hendurnar
Það er satt sem stendur á kápunni og á svo sannarlega við um bókina „Að skrifa smásögu er eins og að sýna töfrabrögð í návígi – nokkur þúsund orð fara með mann í ferðalag um alheiminn eða kremja hjartað.“ Bókin er yfir 300 síður og ég varð hugfanginn á hverri einustu. Las eina sögu á dag í tuttugu daga og leyfði áhrifunum að berast um vitundina með tímanum.
Það er gott jafnvægi í bókinni, milli aldurs og kyns höfunda og hvað efni varðar, það er um samfélagsþætti, um kúgun, mæður, feður, lífbaráttu. Þær eru um samband, fjötra, dauða, töfra, ást, leit, val, misrétti, frelsi og gleði. Hver saga ber sinn tón.
Það er vandasamt að sjá fyrir sér þá útkomu sem verður í huga lesenda þegar smásögur eftir 20 höfunda eru saumaðar saman í eitt verk í íslenskri þýðingu. Töfrar gerast og óvæntar tengingar eiga sér stað. Lesandanum gefst tækifæri til að hugsa um mannlegt hlutskipti út frá mörgum sjónarhornum en megineinkennið er að finna fyrir þeirri mannúð sem ofin er fínlega milli orða af ósegjanlegri kennd, sársauka og hlýju.
Þýðingar á Íslensku gefa okkur tækifæri til að ferðast með öðrum frá menningu til menningar á móðurmálinu. Sögurnar er afburðaþýddar af 14 þýðendum og verkinu ritstýrt af Rúnari Helga Vignissyni, Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur og Jóni Karli Helgasyni. Aðrir þýðendur eru Dagbjört Gunnarsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Hjörleifur Rafn Jónsson, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Ingunn Snædal, Jón Egill Eyþórsson, Lárus Jón Guðmundsson, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Sindri Guðjónsson og Steingrímur Karl Teague. Einnig má nefna stuttar kynningar á undan hverri sögu sem vekja áhuga á höfundum.
Gunnar Hersveinn
https://stundin.is/blogg/lifsgildin/sogurnar-fylla-lesandann-slu/