Nýlega birtist eftir mig smásaga í safnritinu Where We Started, Stories of Living Between Worlds sem gefið er út í Hamborg í Þýskalandi og inniheldur smásögur eftir átta höfunda hvaðanæva úr heiminum. Ritstjórar eru Ana-Maria Bamberger og Alicia McKenzie en sú síðarnefnda á sögu í rómanska bindi Smásagna heimsins. Sagan mín heitir „Ættartalan“ á íslensku og kom fyrst út í bókinni Ást í meinum árið 2012.
Hugmyndina að sögunni má rekja til þess að á háskólaárum mínum í Reykjavík bað Guðrún amma mín mig að skrá fyrir sig í stílabók alla afkomendur sína. Þeir voru þá þegar orðnir fjölmargir enda hafði hún eignast sextán börn. Hún mundi flesta afmælisdaga þessara afkomenda sinna. Stór kona og eftirminnileg, hún amma Guðrún, og nú skiptum við hundruðum sem berum erfðavísa frá henni. Rétt er þó að taka fram að söguþráðurinn er uppspuni.
Minn gamli kennari, Julian M. D’Arcy, þýddi söguna af mikilli list. Bókina má m.a. nálgast á Amazon.