Þó að einungis sé einn fastráðinn kennari í ritlist, sá sem hér skrifar, er ekki þar með sagt að hann sé allt í öllu. Margir aðrir leggja þar hönd á plóg. Meðal þeirra sem stýrt hafa ritsmiðjum síðan ritlist var gerð að aðalgrein til BA-prófs eru Sigurður Pálsson, Anna Heiða Pálsdóttir, Jason Rotstein, Árni Óli Ásgeirsson, Dagur Kári Pétursson og nú á vormisseri mun Karl Ágúst Úlfsson bætast við. Þá hafa Hlín Agnarsdóttir og Jón Atli Jónasson tekið að sér leiðsögn með BA-verkefnum.
Við höfum einnig efnt til fyrirlestraraðarinnar Hvernig verður bók til?, sem bæði er ætluð ritlistarnemum og almenningi, og þar hafa talað þau Jón Kalman Stefánsson, Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir, Einar Kárason, Auður Ava Ólafsdóttir, Bragi Ólafsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Kristján Árnason, Ragnar Bragason og Kristín Helga Gunnarsdóttir. Auk þeirra hafa þau Guðrún Eva Mínervudóttir, Ágúst Borgþór Sverrisson, Egill Heiðar Anton Pálsson og Tobba Marinósdóttir sótt okkur heim. Þá stóðum við ásamt öðrum að alþjóðlegri ráðstefnu, Art in Translation, sl. vor og fengum alls konar fólk í heimsókn.
Af þessu má ráða að ritlistarnemar heyja sér forða héðan og þaðan. Þar að auki lesa þeir auðvitað ritverk eftir fjölmarga höfunda. Mikið ofboðslega hlýtur að vera gaman að vera ritlistarnemi!