Tveir meistaranemar í ritlist, þau Kristian Guttesen og Heiðrún Ólafsdóttir, sendu nýverið frá sér ljóðabækur. Þar tala tvær gjörólíkar raddir, vel skilgreindar og aðlaðandi báðar.
Bók Kristians nefnist Vegurinn um Dimmuheiði og geymir bæði frumsamin ljóð og þýðingu á ljóði eftir Bukowski. Ljóðin eru margbrotin, í aðra röndina heimspekileg, eins og t.d. ljóðið „Nafnlaust ljóð um dauða og dauðastundir“ sem hefst svona: „Hafði ég tekið þátt í nauðgun / með aðgerðaleysi mínu? / Hafði ég með aðgerðaleysi mínu svelt lítið barn í Afríku? / Ég sé mömmuna dána, / ég sé barnið með bumbuna útí loftið / svo stóra að það vekur viðbjóð.“
Bók Heiðrúnar ber titilinn Á milli okkar allt og fjallar um samskipti pars, allt frá tilhugalífi og fram yfir skilnað að því er virðist. Heiðrún beitir kímni óspart í ljóðum sínum, oft með góðum árangri: „Hin fegurstu sólarlög / færi ég þér. / Ég set þau á vesturhimininn / þegar vel viðrar, síðdegis. / Þú getur nálgast þau þar.“
Ég óska Kristian og Heiðrúnu til hamingju með þessar prýðilegu ljóðabækur. Ég held að þær gætu glatt marga sem á annað borð unna ljóðum.