Fimmtudaginn 14. apríl flutti Kevin Larimer hádegiserindi í Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um mismunandi leiðir að útgáfu bókmenntatexta. Kevin er aðalritstjóri Poets & Writers, stærstu samtaka í Bandaríkjunum sem ekki eru rekin í ágóðaskyni, sem þjónusta ljóðskáld og aðra höfunda bókmenntatexta.
Kevin spjallaði um ýmsar brautir sem höfundar geta fetað á leið sinni að útgáfu, allt frá bókmenntatímaritum, ritlistarsamkeppnum til umboðsmanna og útgefenda. Hann ræddi einnig um álagið sem fylgir þessu ferli og því að koma sér á framfæri og stuðninginn sem finna má í ritlistarsamfélögum, svo sem ritlistarnámi, ritsmiðjum og öðrum bókmenntasamfélögum. Að lokum gaf hann íslenskum höfundum nokkur ráð um hvernig ætti að koma þýðingum á íslenskum verkum á framfæri hjá tímaritum og útgáfuhúsum í Bandaríkjunum.
Að erindinu stóðu Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Iceland Writers Retreat í samvinnu við námsbraut í ritlist við Háskóla Íslands.