Átta úr ritlist fá úthlutun úr Launasjóði rithöfunda

Átta manns sem ýmist eru í ritlistarnámi hjá okkur við Háskóla Íslands eða hafa lokið því fengu úthlutun úr Launasjóði rithöfunda í ár. Þetta eru langhæstu tölur sem við höfum séð hingað til og mesti mánaðafjöldi.

1073748_561008977288547_243432127_o
Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Bryndís Björgvinsdóttir fékk níu mánuði.

Hildur Knútsdóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Soffía Bjarnadóttir fengu sex mánuði.

Halla Margrét Jóhannesdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Sverrir Norland fengu þrjá mánuði.

Þessar úthlutanir skipta miklu máli fyrir viðkomandi og ekki síður fyrir alla hina sem tengjast náminu, þær eru hvatning til að sækja fram og umfram allt stuðla þær að því að höfundarnir geti helgað sig ritstörfum í meira mæli. Ég óska þeim öllum til hamingju og hlakka til að fá að sjá afraksturinn. Þau úr okkar hópi sem fóru bónleið til búðar hvet ég til að láta ekki deigan síga, heldur halda áfram að vinna í handritum sínum og sækja um aftur.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson og Þórey Mjallhvít H Ómarsdóttir fengu auk þess þriggja mánaða úthlutun úr Launasjóði Myndlistarmanna. Leikhópurinn Soðið svið, en í honum er útskrifaður ritlistarnemi, Harpa Arnardóttir, fékk 17 mánuði úr Launasjóði sviðslistafólks, Harpa fær auk þess þriggja mánaða úthlutun sem einstaklingur til að skrifa leikverk. Kriðpleir, en í þeim hópi er ritlistarneminn Friðgeir Einarsson, fékk 13 mánaða úthlutun og hin útskrifaða Halla Þórlaug Óskarsdóttir er einnig í sviðslistahópi sem fær 11 mánaða úthlutun, þar af fær Halla Þórlaug þrjá mánuði til handritsgerðar.

Þess má ennfremur geta að í gær fékk ritlistarneminn Heiðar Sumarliðason styrk úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen hjá RÚV til að vinna að útvarpsleikriti. Honum er einnig óskað til hamingju.