Blaðamannverðlaun ársins voru afhent í Gerðarsafni á dögunum. Þá bar það til tíðinda að tveir blaðamenn með BA-gráðu í ritlist voru verðlaunaðir. Annars vegar Jón Bjarki Magnússon sem var útnefndur blaðamaður ársins ásamt félaga sínum Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir umfjöllun sína um lekamálið í DV. Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Þrátt fyrir harða gagnrýni og ótal tilraunir til þöggunar stóðu blaðamennirnir í ístaðinu. Þolgæði þeirra varð til þess að ljósi var varpað á það sem raunverulega gerðist á bakvið tjöldin. Það minnir á mikilvægi gagnrýninnar blaðamennsku og að trúnaður blaðamanna sé fyrst og síðast við almenning í landinu og engan annan.“
Jón Bjarki skrifaði BA-verkefni undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar, ljóðahandrit sem bar heitið Bútasaumsteppi. Bók byggð á verkefninu kom út hjá Útúrdúr árið 2011 undir heitinu Lömbin í Kambódíu (og þú). Fyrir hana fékk Jón Bjarki Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs 2010.
Hinn blaðamaðurinn sem um ræðir er Ólöf Skaftadóttir en hún hlaut verðlaun fyrir besta viðtalið árið 2014. Það var viðtal við tvíburabræðurna Kára og Halldór Auðar- og Svanssyni um baráttu þeirra við geðræna sjúkdóma. Ólöf útskrifaðist með BA í ritlist árið 2013. Lokaverkefni hennar hét Þvinguð þögn og þar lagði hún drög að fimm sjónvarpsþáttum undir handleiðslu Silju Hauksdóttur. Í umsögn dómnefndar um verðlaunaviðtalið segir m.a.: „Viðtalið er einstaklega hispurslaust um baráttu þeirra bræðra við geðræna sjúkdóma. Þrátt fyrir erfitt umfjöllunarefni nær Ólöf að viðhalda léttleika í gegnum viðtalið en gefur samt ekkert eftir í raunsönnum lýsingum.“ Smellið á hlekkinn hér fyrir ofan til að lesa viðtalið.
Ég óska þeim Jóni Bjarka og Ólöfu til hamingju með verðlaunin en ekki síst með að vera svo skapandi manneskjur.