Ný skáldsaga eftir mig, Eftirbátur, kom út 22. september sl. Dimma gefur út og er þetta fyrsta bókin sem kemur út eftir mig hjá því góða forlagi. Ég leitaði þangað vegna þess að ég þekki eigandann af góðu einu. Hann er smekkmaður á bókmenntir, gengur vel og fallega frá útgáfubókum sínum og svo er maðurinn sjálfur líka einkar traustur.
Á bókarkápu segir:
Ægir leitar að sjómanninum föður sínum eftir að bátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Leitarleiðangrar Ægis vekja spurningar um faðernið sjálft í þessum harðbýla heimshluta. Hver er hinn raunverulegi faðir og hvað mótaði hann? Er nauðsynlegt að þekkja söguna til að vita hver maður er?
Þetta vefst fyrir Ægi sem lifir og hrærist í núi auglýsingaheimsins og veit „andskotann ekkert um fortíðina“. Í leit sinni fer hann vítt og breitt um stórbrotna náttúru og sögu Vestfjarða þar sem rætur hans sjálfs liggja. Á sama tíma eru teikn á lofti í fjölskyldulífinu og brestir komnir í hina hefðbundnu karlmennskuímynd.
Bókin var lengi í smíðum, heilan aldarfjórðung, aðallega vegna þess að ég var lengi að móta hugmyndina og finna henni farveg. Í bókinni læt ég tímana tvenna flæða saman í eina frásögn og það tók tvo áratugi að finna aðferðina. En nú er þetta komið og fyrstu viðbrögð eru jákvæð: „Bókin er frumleg, ég hef aldrei lesið svona bók áður,“ sagði einn sjóaður lesandi við mig á dögunum.