Ellefu viðurkenningar í hús á einum eftirmiðdegi

Skáld sem hafa gráðu í ritlist, eru í námi í ritlist eða hafa lokið stökum ritlistarnámskeiðum gerðu garðinn frægan í kvöld. Samtals komu í hús 11 viðurkenningar til 10 einstaklinga sem tengjast ritlist á þeim tveimur verðlaunahátíðum sem haldnar voru síðdegis.

fjaran 2015
Þær fengu Fjöruverðlaunin: Þórunn Sigurðardóttir, Hildur Knútsdóttir og Halldóra K. Thoroddsen.

Hildur Knútsdóttir, sem hefur BA-gráðu í ritlist, hreppti í dag Fjöruverðlaunin fyrir ungmennabókina Vetrarfrí sem JPV gaf út. Í umsögn dómnefndar segir:

Vetrarfrí er lipurlega skrifuð og ákaflega spennandi unglingabók með mikilvægan boðskap og sterka ádeilu. Sagan hefur sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum,“ segir í umsögn dómnefndar, og ennfremur: „Þrátt fyrir að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni sem gerir það að verkum að það fjarstæðukennda verður öllu bærilegra aflestrar og er því þessi hörmungasaga því um leið líka stórskemmtileg.“

Á sama tíma var Ljóðstafur Jóns úr Vör afhentur í Salnum í Kópavogi en hann er alla jafna afhentur 21. janúar, á fæðingardegi skáldsins sem stafurinn er kenndur við. Alls eru veittar 10 viðurkenningar og vill svo til að allir sem fengu viðurkenningu hafa einhver tengsl við ritlistarnámið við Háskóla Íslands. Sjö þeirra eru með meistarapróf í ritlist, ein enn í námi og hinir tveir tóku stök ritlistarnámskeið í grunnnámi.

Fyrstu verðlaun hlaut Dagur Hjartarson fyrir ljóðið „Haustlægð“:

Haust­lægð 

haust­lægðin kem­ur að nóttu
og merk­ir tréð í garðinum okk­ar

með svört­um plast­poka
eins og til að rata aft­ur

og hún rat­ar aft­ur
aðra nótt
öskr­ar eitt­hvað sem eng­inn skil­ur
fleyg­ir á land þangi og þara
og fleiri vængjuðum mar­tröðum
úr iðrum Atlants­hafs­ins

morg­un­inn eft­ir er fjöru­borðið gljá­andi svart
eins og ein­hver hafi reynt að mal­bika leiðina
niður í und­ir­djúp­in

og það er þess vegna sem haust­lægðin kem­ur
utan af haf­inu
hún er rödd þeirra
sem týndu orðaforðanum í öldu­gangi

við horf­um á nýmal­bikaðan veg­inn
og bíðum eft­ir að þeir gangi á land

 

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Þetta er ljóð sem dregur upp nýstárlega mynd af alkunnu og einkar óskáldlegu veðurfyrirbæri, haustlægð. Ljóðið hefst með lýsingu á því hvernig getur verið umhorfs í görðum og úti við strönd dagana eftir fyrstu næturheimsóknir haustlægðarinnar. Flest er kunnuglegt í byrjun en þegar líður á ljóðið virðist haustlægðin vera annað og meira en auðskiljanlegt veðurfyrirbæri. Hún kann að vitna um einhverja togstreitu manns og náttúru en um leið er hún kannski af öðrum heimi og ef til vill tengist hún undirdjúpum sálarlífsins. Það er bæði ógn og eftirvænting í loftinu. Enginn veit hvað þessi haustlægð færir með sér. Í ljóðinu birtast okkur áleitnar myndir sem vekja spurningar um líf og dauða en veita engin einföld svör.“

 

Önnur verðlaun hreppti Hrafnhildur Þórhallsdóttir fyrir ljóðið „Þrá“ og í þriðja sæti varð Sigurlín Bjarney Gísladóttir með ljóð sitt „Arfur“. Auk verðlauna fyrir fyrstu þrjú sætin voru veittar sjö viðurkenningar. Þær hlutu:

Jonurvor_2016_6
Þarna er Dagur með ljóðstafinn ásamt þeim hinum sem fengu líka viðurkenningu. Sigurður Pálsson og undirritaður fengu að vera með á myndinni. Á myndina vantar Kára og Arndísi.

Arndís Þórarinsdóttir

Dagur Hjartarson

Jón Örn Loðmfjörð

Jónas Reynir Gunnarsson

Kári Tulinius

Kristinn Árnason

Soffía Bjarnadóttir

Þar sem enginn fékk Ljóðstafinn í fyrra var verðlaunfé tvöfaldað að þessu sinni og nam einni milljón króna sem skiptist þannig að 600.000 kr. voru veittar fyrir fyrsta sætið, 300.000 kr. fyrir annað sæti og 100.000 kr. fyrir þriðja sætið. Vel að verki staðið hjá Kópavogsbæ sem efnir til ljóðahátíðar í bænum í tengslum við Ljóðstafinn.

Í dómnefnd voru Anton Helgi Jónsson skáld, Ásdís Óladóttir skáld og Bjarni Bjarnason rithöfundur.