Eyþór og Lárus vinna til verðlauna

Tveir meistaranemar í ritlist unnu á dögunum til verðlauna í ritlistarsamkeppnum.

11227518_10207560020229049_359042217906338638_n
Eyþór Gylfason

Eyþór Gylfason vann fyrstu verðlaun í textasamkeppninni Ungskáld sem efnt var til á Akureyri. Ungskáld er samstarfsverkefni Amtsbókasafnins, Akureyrarstofu, Ungmenna-hússins, Menntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Framhaldsskólans á Húsavík. Á vef Menntaskólans á Akureyri segir að tilgangur verkefnisins og keppninnar, sem var nú haldin í þriðja sinn, sé að hvetja ung skáld á aldrinum 16-25 ára til skapandi skrifa.

Eyþór varð hlutskarpastur að þessu sinni. Vinningssaga hans heitir „Lést samstundis“. Þess má geta að Eyþór útskrifaðist frá MA árið 2010. Segja má að hann hafi afsannað að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi.

Screen Shot 2015-12-15 at 20.53.29
Lárus Jón Guðmundsson

Stúdentablaðið hefur undanfarin ár efnt til ritlistasamkeppni. Í nýútkomnu blaði var tilkynnt að Lárus Jón Guðmundsson hefði hlotið þriðju verðlaun í síðustu samkeppni fyrir ljóðin Tígur I, II og III. Það sem er sérstakt við framlag Lárusar Jóns er að hann notar þar sömu orðin til að yrkja þrjú ljóð, hvert með sínum bragarhætti, eins og dómari keppninnar, Bjarki Karlsson, útlistar í greinargerð. En þó að orðin séu þau sömu er merkingin ekki sú sama í öllum ljóðunum. Skoða má framlag Lárusar Jóns í rafrænni útgáfu Stúdentablaðsins, bls. 33.

Þeim Eyþóri og Lárusi er óskað til hamingju með viðurkenningar sínar.