Hinn 15. apríl rennur út frestur til að sækja um meistaranám í ritlist. Til að að vera gjaldgeng/ur þarf að hafa lágmarkseinkunn úr grunnnámi. Þriggja manna inntökunefnd, skipuð umsjónarmanni námsins og tveimur rithöfundum sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir, velur síðan inn á grundvelli innsendra handrita.
Umsækjendur geta sent inn örsögur, smásögur, kafla úr skáldsögu fyrir börn eða fullorðna, listræna ritgerð, sannsögu, einþáttung, kvikmyndahandrit, ljóð eða annan texta af listrænu tagi; hámark 30 síður. Ljóðskáld sendi 10–12 ljóð. Þá skulu umsækjendur einnig skila inn stuttri greinargerð um áhugasvið sitt og markmið með náminu (ein síða). Frumsamið efni skal setja saman í eitt skjal og láta fylgja rafrænni umsókn í viðhengi.
Meistaranám í ritlist var tekið upp árið 2011. Síðan hafa vinsældir þess verið svo miklar að einungis hefur verið hægt að hleypa tæplega helmingi umsækjenda inn. Þeir sem ekki ná inn í fyrstu atrennu er hvattir til að reyna aftur. Námið er 120 einingar fyrir þá sem hafa bakgrunn í íslensku, ritlist eða bókmenntum en hjá þeim sem ekki hafa neinn slíkan bakgrunn bætast 30 einingar við.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Háskóla Íslands.