Höfundur með meistaragráðu í ritlist frá HÍ hefur nú í fyrsta skipti selt bók til útlanda. Sagt var frá því á dögunum að franska forlagið Zulma, sem m.a. hefur gefið út verk Auðar Ólafsdóttur, hygðist gefa út frumraun Soffíu Bjarnadóttur, Segulskekkju. Bókin kom út hjá Máli og menningu síðastliðið haust og fékk afar lofsamlega dóma; var þess t.a.m. gjarnan getið hve vel stíluð bókin væri. Hún var að hluta til unnin í meistaranámi Soffíu.
Segulskekkja fjallar um konu sem fær óvænt símtal er sendir hana í ferðalag frá Karijoki til Flateyjar um miðjan vetur til að mæta í jarðarför. Í vetrareyjunni rekur sálma, drauma og minningar á land sem þvinga hana til að rýna í sitt eigið sár og horfast um leið í augu við hina goðsagnakenndu Siggý – móðurina sem rís reglulega úr ösku með sólina í höfðinu, eins og segir í kynningartexta Máls og menningar.
Auk þess að hafa MA-gráðu í ritlist er Soffía menntuð í bókmenntafræðum og leikhúsfræðum. Hún hefur m.a. starfað við skriftir, háskólakennslu og bókmenntarýni. Soffíu er óskað til hamingju með þennan áfanga.