Fyrstu meistaranemarnir í ritlist útskrifast

Í dag náum við þeim merka áfanga að útskrifa fyrstu meistaranemana í ritlist. Það eru þau Bryndís Emilsdóttir, Daníel Geir Moritz og Heiðrún Ólafsdóttir. Ég óska þeim til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

Bryndís, Daníel og Heiðrún tóku mismunandi áfanga á leið sinni að meistaragráðunni en eiga það þó sammerkt að þau skrifuðu öll lokaverkefni í sagnagerð undir minni handleiðslu. Þau eiga það einnig sammerkt að hafa öll birt frumsamið efni meðan á náminu stóð.

Bryndís hefur birt sögur í þremur safnritum ritlistarnema, nú síðast í Hvísli sem meistaranemar gáfu út í vor í samvinnu við nema í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

Daníel Geir hefur birt efni í tveimur safnritum ritlistarnema auk þess sem hann gaf nýverið út bókina Að prumpa glimmeri sem er sjálfshjálparbók í léttum dúr. Daníel er einnig þekktur sem uppistandari.

Heiðrún hefur birt efni í einu safnriti ritlistarnema og í fyrra gaf hún út ljóðabókina Á milli okkar allt en fyrir hana fékk hún Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs. Heiðrúnu var einnig boðið á norrænt þing í Svíþjóð nú í vor, ætlað þeim sem gáfu út sína fyrstu bók í fyrra.

Bryndís, Daníel og Heiðrún eru úr 24 manna hópi sem tekinn var inn haustið 2011. Flestir úr þeim hópi eru langt komnir með námið og munu útskrifast í haust og næsta vetur.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af glaðlegum útskriftarnemum, frá vinstri: Heiðrún, Bryndís og Daníel. Ég á eftir að sakna þeirra. Vonandi halda þau öll áfram að skrifa.

Screen Shot 2013-06-22 at 16.47.01

Bryndis

Daniel 2