Frá og með haustinu 2008 hefur ritlist verið boðin sem aðalgrein til BA-prófs í Íslensku- og menningardeild. Nú er þess vegna komið að því að fyrstu ritlistarnemarnir útskrifist. Rebekka Rafnsdóttir varð fyrst til þess í vor og skrifaði hún lokaverkefni í formi kvikmyndahandrits undir leiðsögn Sigurðar Pálssonar skálds. Nú á haustdögum útskrifast svo Sverrir Norland og Hildur Knútsdóttir. Útskriftarverkefni Hildar er unglingasagan Vetrarfrí, saga af skrímslum sem hertaka Ísland, nokkurs konar innrásarvíkingar. Útskriftarverkefni Sverris er ljóðabókin Með mínum grænu augum sem hann hefur jafnframt gefið út fyrir almennan markað og fengið lofsamlega dóma fyrir.
Þess má geta að vegna mikillar aðsóknar voru ekki teknir inn nýnemar í ritlist nú í haust. Nýir nemar verða hins vegar teknir inn á næsta ári, en þá er stefnt að því að kenna ritlist á meistarastigi.