Í dag var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðalaunanna. Meðal þeirra sem hlutu tilnefningu að þessu sinni er Hildur Knútsdóttir en hún útskrifaðist með BA-próf í ritlist árið 2010. Hildur er tilnefnd í flokki barna- og ungmennabókmennta fyrir bókina Vetrarfrí sem JPV-útgáfa gefur út. Bókin er lauslega byggð á BA-verkefni Hildar sem hún vann undir handleiðslu síðuritara.
Hildur hefur áður sent frá sér bækurnar Slátt, Hola lovers og Spádóminn. Fyrr á árinu gaf hún einnig út bókina Draugaljósið á vegum Námsgagnastofnunar.
Nokkrir höfundar sem hafa sinnt kennslu, leiðsögn eða prófdæmingu fyrir ritlistina hlutu einnig tilnefningu í dag. Það eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sem fékk tilnefningu til þýðingaverðlaunanna fyrir Nýsnævi, safn ljóðaþýðinga, Auður Jónsdóttir fyrir skáldsöguna Stóri skjálfti, Þórdís Gísladóttir fyrir Randalín, Munda og afturgöngurnar, Hermann Stefánsson fyrir Leiðina út í heim og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir þýðingu á Grimmsævintýrum. Gunnar Theodór Eggertsson, sem mun kenna námskeið á vegum ritlistar næsta vetur, fékk jafnframt tilnefningu fyrir bókina Drauga-Dísa.