Nautnastuldur

Skáldsaga.

Egill Grímsson. Drengur úr dreifbýlinu, skólaður í Reykjavík, tvístígandi í Kaupmannahöfn, á framabraut í Bandaríkjunum. Sjúklega feiminn, fullur sjálfsvorkunnar og finnst hann hvergi eiga heima. Aldrei þorað að gleyma sér í glasi, þó svo að pabbi hans sé alki, Didda systir fórnarlamb hryðjuverkamanna og sæli bróðir forfallinn framafíkill.

Hann er erfiður sá veruleiki sem nútíminn leggur ungum manni á herðar. En getur nokkur maður orðið heilsteyptur einstaklingur í samfélagi mótsagnanna? Og ástin sjálf – hvað þá girndin! Varla getur það talist neitt grín að velja sér konu og lynda við hana á tímum jafnréttis og framafíknar.

Getur verið að Egill þjáist af þeirri algengu angistartruflun nútímamanna sem kölluð hefur verið nautnastuldur? Eða myndu þeir pabbi gamli og Sæli bróðir bara kalla hann amlóða?

Slíkar spurningar ber Rúnar Helgi Vignisson á borð í sögunni um Egil Grímsson – því eins og aðrar snjallar sögur er þessi ekki öll þar sem hún er séð. Hún er allt í senn – táknræn og sértæk, nautnaleg og hrollvekjandi, ærslafull og sorgleg. Sannkallaður nautnafundur! (Af bókarkápu)

Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990.

Útgefandi: Forlagið.

Ritdómar
„Nautnastuldur er býsna skemmtileg saga og vel skrifuð . . . sú krafa sem Egill gerir til þeirra sem næst honum standa – að þeir veiti honum athygli – verður að kröfu um að lesandinn fylgi honum til bókarloka – og það er þess virði.”Súsanna Svavarsdóttir, Morgunblaðinu

„Hér er fengist af einlægni og alvöru við vanda sem ef til vill er lykill að samtímareynslu okkar, vanda sem ekki verður lýst til hlítar nema í skáldskap. Sagan er að auki þétt í sér og merkingarrík, full af tilvísunum, beinum og óbeinum.”

Matthís Viðar Sæmundsson, Rás 1

Nautnastuldur byggir á rústum gamallar heimsmyndar og gamalla hugmynda um samfélagið í heild þegar ný og afstæð heimsmynd er að verða til. Ekkert er eins og það sýnist, ekki einu sinni mannskepnan sjálf sem ekki veit hvar öruggt er að drepa niður fæti. Þessar hugmyndir kristallast í Nautnastuldi Rúnars Helga þar sem hin póstmóderníska hugvera er sundurgreind í smæstu einingar og ekkert undanskilið, hvort sem það eru leyndustu hugsanir hennar, kynlíf eða salernisferðir.”

„Þetta er saga um árekstur gamalla gilda og nýrra og hvernig, og hvort, manninum tekst að púsla brotunum saman svo útkoman verði slétt og felld. HafiNautnastuldur einhvern boðskap er hann sá að sýna hvernig heimurinn er að breytast og hvernig fólk, bæði karlar og konur, taka á þessum breytingum.”

Helga Birgisdóttir Kaaber, Mímir 51, 2007

 

Forlagið 1990. Sjá nánar.

Endurskoðuð útgáfa gefin út í kilju af Græna húsinu 2006. Sjá nánar.