Kristján Árnason flutti í gær fyrirlestur um þýðingu sína á Ummyndunum Óvíds. Kristján kom víða við og henti m.a. gaman að þeirri goðsögn að hann hefði unnið að verkinu áratugum saman eins og fram kom í kynningu á fyrirlestrinum. Kristján sagðist að vísu hafa byrjað að þýða kafla úr verkinu á námsárum sínum og fengið suma þeirra birta í Eimreiðinni en þar sem hann hefði ekki fengið neinn útgefanda að verkinu öllu hefði hann ekki einhent sér í þýðingarvinnuna fyrr en Forlagið bauð honum útgáfusamning 2004. Þótt hann hefði ekkert á móti goðsögnum, eins og gefur að skilja (Ummyndanir er safn goðsagna), vildi hann leiðrétta þetta enda gætu menn ella haldið að hann hefði ekki gert neitt annað. Eins og kunnugt er kenndi Kristján klassískar bókmenntir við Háskóla Íslands áratugum saman auk þess sem hann bæði þýddi og frumsamdi ýmislegt annað.
Annars vildi Kristján ekki tjá sig mikið um sjálfa glímuna við Ummyndanir, það krefðist þess að hann yrði persónulegur og það væri ekki hans sterka hlið, nokkuð sem hann ætti sammerkt með þýðendum almennt sem vildu lítið láta á sér bera. „Ef þýðandi vekur athygli á sér er það yfirleitt fyrir einhverja bommertu,“ sagði Kristján og henti gaman að kollega sínum sem taldi þýsku samtenginguna „jedoch“ vera mannsnafn. Slíkt gæti hent þýðendur og þá lægju þeir vel við höggi.