Steinunn Sigurðardóttir kemur beint frá Berlín og talar um nýjustu skáldsögur sínar, Jójó og Fyrir Lísu, á Háskólatorgi (stofu 105) fimmtudaginn 7. mars klukkan tólf. Steinunn bætist þar með í hóp þeirra góðu höfunda sem hafa talað í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til?
Um leið og Steinunn Sigurðardóttir fer yfir sköpunarsögu skáldsaganna tveggja, kemur hún einnig inn á tengslin við íslenskan veruleika og nýlegar afhjúpanir um kynferðisbrot, gegn drengjum sérstaklega.
Hvaða erindi eiga tveir Berlínarbúar, þýskur geislalæknir og franskur róni, sem aðalpersónur í íslenska skáldsögu? Hvernig datt Steinunni Sigurðardóttur í hug – eftir að hafa sent frá sér Reykjavíkurskáldsögur með ívafi ljóða eins og Tímaþjófinn og Sólskinshest, íslenska ferðasögu fjögurra kvenna, eins og Hjartastað – að fjalla um sameiginlega lífsreynslu og vináttu Martins læknis og Martins róna í Berlín? En þeir reynast vera þjáningarbræður sem glíma báðir við afleiðingar af því að hafa verið gert mein þegar þeir voru börn.
Skáldsagan Jójó kom út 2011, og fékk afar lofsamlega dóma. Hún fjallar um leyndarmálið meðan það er enn leyndarmál og maðurinn ber það einn. Framhaldið, Fyrir Lísu, kom út 2012. Þar er leyndarmálið opinberað og reynt er að afhjúpa barnaníðing, virðulegan borgara, sem hefur stundað sína iðju í áratugi. Hvernig lifir þolandinn í nýju lífi eftir að hann hefur ljóstrað upp um leyndarmál sitt?
Steinunn bjó um árabil í Frakklandi, en hefur undanfarin ár átt heima í Berlín. Jójó og Fyrir Lísu eru fyrstu skáldsögur hennar sem gerast alfarið utan Íslands. Andrúmsloft Berlínarborgar skiptir miklu máli í báðum sögunum. Í fyrirlestrinum svarar Steinunn því hvers vegna hún færði sig á þetta sögusvið.
Mikil umræða hefur spunnist um skáldsögurnar Jójó og Fyrir Lísu, og hefur leikurinn borist í læknadeild HÍ, sem hluti af námskeiði um „narrative medicine“. Þá fjallaði Dagný Kristjánsdóttir prófessor í bókmenntafræði um skáldsögurnar tvær á læknadögum, ásamt tveimur læknum. Í nýjasta tölublaði Tímarits máls og menningar er grein um Jójó eftir Þröst Helgason.
Verið er að þýða Jójó á ensku, frönsku, og á þýsku. Jójó er sjöunda skáldsaga Steinunnar sem kemur út hjá Rowohlt, einu helsta útgáfufyrirtæki í Þýskalandi. Fjöldi bóka eftir hana hefur einnig verið þýddur á frönsku og norðurlandamál, og á þessu ári koma tvær skáldsögur Steinunnar út í enskri þýðingu.
Steinunn Sigurðardóttir á að baki langan og glæsilegan höfundarferil, en fyrsta bók hennar, ljóðabókin Sífellur, kom út 1969. Nýjasta ljóðabók hennar, Ástarljóð af landi, var þýdd á þýsku og frönsku og ljóð eftir hana hafa birst í tímaritum og safnbókum á mörgum tungumálum, nú síðast á japönsku.