Ófeigur Sigurðsson ræðir um hina umtöluðu bók sína, Öræfi, sem hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir árið 2014, í fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?“ 19. mars.
Ófeigur er með yngri verðlaunahöfum, fæddur 1975. Fyrsta bók hans, Skál fyrir skammdeginu, kom út árið 2001. Áður en skáldsagan Öræfi kom út hafði hann vakið einna mesta athygli fyrir bókina Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Fyrir hana hreppti Ófeigur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins.
Fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Þar hafa margir af virtustu höfundum þjóðarinnar rætt um ritverk sín. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, milli 12 og 13 fimmtudaginn 19. mars.
Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.