Ólafur Gunnarsson flytur fyrirlestur í röðinni „Hvernig verður bók til?“ fimmtudaginn 18. febrúar kl. 12-13 í 101 Odda. Ólafur er einn af kunnustu höfundum landsins. Hann er höfundur fjölmargra skáldsagna og hafa sumar þeirra notið mikilla vinsælda. Sú fyrsta, Milljón prósent menn, kom út árið 1978. Skáldsagan Tröllakirkja var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1992 og ensk þýðing hennar til IMPAC Dublin verðlaunanna.
Öxin og jörðin fjallar um siðaskiptin á Íslandi og átökin sem af þeim hlutust. Þar eru Jón Arason og synir hans í stórum hlutverkum. Bókin hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003. Ólafur mun ræða um tilurð bókarinnar og verður pottþétt spurður út í það hvaða heimildir hann hafi fyrir þeim miklu átökum og blóðsúthellingum sem urðu í tengslum við þessa geistlegu breytingu.
Þess má geta að Ólafur er 25. höfundurinn sem tekur til máls í fyrirlestraröðinni frá því að henni var hleypt af stokkunum árið 2009.