Haustið 2011 hófst nám í ritlist á meistarastigi við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 24 nemar, sem höfðu verið valdir úr hópi umsækjenda, hófu þá nám. Reyndar á orðið nám ekki alls kostar við þá iðju, nær væri að tala um að þessum 24 einstaklingum hafi þarna gefist kostur á að þroska hæfileika sína á þessu sviði undir handleiðslu reyndra höfunda. Starfið hófst af miklum krafti og ekki minni gleði því öllum finnst gaman að skapa.
Hinn 15. apríl rennur út umsóknarfrestur um nám í ritlist á meistarastigi. Allt að 25 nýir nemar verða þá teknir inn og sér þriggja manna inntökunefnd, skipuð umsjónarmanni námsins (mér) og tveimur rithöfundum sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir, um að velja úr umsóknum. Valið er inn á grundvelli efnis sem umsækjendur láta fylgja umsókn sinni.
Námið er í grófum dráttum þrískipt. Í fyrsta lagi er um svokallaðar smiðjur að ræða þar sem þátttakendur vinna með reyndum höfundum að ritsmíðum, í öðru lagi er um lestrarnámskeið að ræða enda flestir á því að lestur sé lykilatriði fyrir höfunda og í þriðja lagi lokaverkefni sem er í formi skapandi ritsmíðar af einhverju tagi.
Ritlistarnám er mjög persónulegt, eins og gefur að skilja. Þátttakendur gefa af sér í gegnum ritsmíðar sínar sem síðan eru gjarnan ræddar af hópnum. Í gegnum samtalið byggist smátt og smátt upp tilfinning og skilningur á eðliseiginleikum ritlistarinnar. Að sama skapi verða kynni þátttakenda náin og mikið er lagt upp úr því að gott samstarf takist enda þarf rithöfundur ekki endilega að vera einyrki.
Þeim sem vilja kynna sér betur hugmyndir mínar um það hvernig höfundur verður til bendi ég á samnefndan pistil minn á Hugrás en hann má finna hér.