Sunnudaginn 15. júlí var frumsýndur á Sögusetrinu á Hvolsvelli einleikurinn Gestaboð Hallgerðar. Hlín Agnarsdóttir, sem kennt hefur leikritun hjá okkur í ritlistinni, skrifar leikinn og leikstýrir en Elva Ósk Ólafsdóttir leikur sjálfa Hallgerði sem í þetta sinn rekur menningartengda ferðaþjónustu á Hlíðarenda ásamt manni sínum hrossabónandum Gunnari. Sjálf er Hallgerður listakona sem hefur sérhæft sig í að búa til listmuni upp úr Njálssögu úr alls kyns hári og köðlum. Gunnar sendir á hana óvæntan gestahóp á Hlíðarenda og hún verður að redda veitingum og sendir vinnumann sinn Melkó til að kaupa Ritzkex og Kirkjubæjarcamembert. Á meðan hefur hún ofan af fyrir gestunum með því að segja þeim sögur af skrautlegu lífi sínu.
Ég sá frumsýninguna og hafði mjög gaman af. Það er vel til fundið hjá Hlín að koma Hallgerði fyrir í ferðaþjónustu nútímans sem nú er orðin stærsta niðursuðuverksmiðja íslenskrar menningar. Og gestaboðið talar beint inn í söguna sjálfa því Hallgerður lenti jú í vandræðum með veisluföng hér um árið og tók þá til sinna ráða. Elva Ósk er glæsileg Hallgerður og túlkun hennar segir manni hvers vegna karlar féllu fyrir henni, í tvennum skilningi.
Í vor tók svo annar ritlistarkennari, Magnea J. Matthíasdóttir, skáld og þýðandi, við barnabókaverðlaunum Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir þýðingu sína á bókinni Hungurleikarnir. Í umsögn dómnefndar um þýðinguna segir m.a.:
Þýðing Magneu J. Matthíasdóttur er fumlaus og laus við tilgerð og talar beint til krefjandi lesendahóps. Í sögunni hverfur lesandinn inn í heim sem er fjarlægur en samt svo nálægur, þökk sé vel heppnaðri þýðingu Magneu.
Ég óska bæði Hlín og Magneu til hamingju.