Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs í Gunnarshúsi 19. september síðastliðinn. Þrír ritlistarnemar fengu styrk að þessu sinni. Dagur Hjartarson fékk styrk fyrir smásagnasafnið Fjarlægðir og fleiri sögur, Heiðrún Ólafsdóttir fyrir ljóðabókina Á milli okkar allt, sem þegar er komin út, og Soffía Bjarnadóttir fyrir textasafnið Segulskekkja. Þau eru öll á öðru ári í meistaranámi í ritlist.
Þá voru tveir ritlistarnemar valdir úr hópi 30 umsækjenda til þátttöku í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins. Það voru þær Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir og voru brot úr verkum þeirra leiklesin 17. september. Tveir aðrir ritlistarnemar tóku þátt í höfundasmiðjunni sem leiðbeinendur, þær Harpa Arnardóttir og Halla Margrét Jóhannesdóttir. Ég óska þeim öllum til hamingju með þessa áfanga.