Tíu ritlistarnemar vinna nú að útgáfu bókar í samvinnu við sjö ritstjórnarnema. Í þetta sinn ákváðu þau að skrifa efni sérstaklega fyrir bókina og varð niðurstaðan sú að skrifa skáldaðar uppskriftir. Hráefnin eru ljóð, sögur og myndir úr smiðju ritlistarnema, eins og segir á kynningarsíðu verkefnisins.
Á einungis fjórum mánuðum tekst hópurinn á við alla þætti útgáfuferlisins: hann skrifar og ritstýrir textunum, sér um umbrot og kápuhönnun og mun sjálfur sleikja frímerkin þegar kemur að því að póstleggja bækurnar.
Höfundar eru Eygló Jónsdóttir, Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, Halli Civelek, Kristinn Árnason, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Skúli Jónsson, Steinunn Lilja Emilsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Þór Fjalar Hallgrímsson.
Ritstjórar eru Elín Edda Pálsdóttir, Elísabet María Hafsteinsdóttir, Fríða Ísberg, Gréta Sigríður Einarsdóttir, María Harðardóttir, Nína Þorkelsdóttir og Ragnheiður Davíðsdóttir.
Leiðbeinandi er Sigþrúður Gunnarsdóttir, ritstjóri hjá Forlaginu.
Nemendurnir nýta hópfjármögnunarsíðuna Karolina fund og þar getur þú, lesandi góður, tryggt þér eintak af þessu riti og séð sýnishorn af efninu sem í því verður. Bókin er væntanleg í maí.
Áður hafa ritlistarnemar gefið út tvö sambærileg rit í samvinnu við ritstjórnarnema, Hvísl árið 2013 og Flæðarmál árið 2014.