Þriðja bindi Smásagna heimsins er komið út. Það er helgað Asíu og Eyjaálfu. Í því eru 20 sögur frá jafn mörgum löndum en markmið ritraðarinnar er að birta góðar sögur frá eins mörgum löndum og kostur er.
Asía og Eyjaálfa spanna marga menningarheima eins og bindið endurspeglar. Þar getur að líta smásögur allt frá arabísku og persnesku ríkjunum í vestri, til Indlands og Japans í austri og Ástralíu og Nýja-Sjálands í suðri. Frá sumum þeirra landa sem eiga fulltrúa í bókinni berast sjaldan sögur til Íslands. Má þar nefna Kúveit, Íran, Norður-Kóreu, Malasíu, Pakistan, Víetnam og Filippseyjar. Stundum er fengist við stóra og átakanlega atburði í þessum sögum, s.s. þjóðarmorð og hreinsanir, en þess á milli sjáum við höfundana glíma við hversdagslegan veruleika.
Sumir vilja helst sjá þekkta höfunda í svona safni. Mér finnst hins vegar enn skemmtilegra þegar maður finnur frábæra höfunda sem enginn hér hefur heyrt um og þá ekki síst frá löndum sem sjaldan eiga fulltrúa á íslenskum bókamarkaði. Hér hefur hvort tveggja gerst og fyrir vikið hefur heimurinn stækkað. Okkur hefur að mínu viti tekist að finna spennandi sögur frá öllum þeim löndum sem eiga fulltrúa í safninu: Líbanon, Ísrael, Sýrlandi, Kúveit, Tyrklandi, Íran, Indlandi, Pakistan, Indónesíu, Malasíu, Singapúr, Víetnam, Kína, Norður-Kóreu, Suður-Kóreu, Taílandi, Japan, Filippsseyjum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Margar sagnanna voru þýddar úr frummáli, s.s. arabísku, taílensku, ensku, kóresku og japönsku, aðrar hafa verið þýddar úr millimáli en íslenska þýðingin síðan borin saman við frumtexta. Alls koma tólf þýðendur við sögu: Dagbjört Gunnarsdóttir þýddi úr japönsku, Jón Egill Eyþórsson þýddi úr kóresku, Sindri Guðjónsson þýddi úr arabísku, Hjörleifur Rafn Jónsson þýddi úr taílensku. Úr ensku þýddu Freyja Auðunsdóttir og Þórir Jónsson Hraundal gátaði, Heiður Agnes Björnsdóttir, Ingunn Snædal, Lárus Jón Guðmundsson, þar sem Xinyu Zhang gátaði, Steingrímur Karl Teague, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir og fyrir hana gátaði Anh-Dao Tran víetnömsku þýðinguna, og ofanritaður en Ali Amoushahi og Svanhildur Konráðsdóttir gátuðu með mér írönsku söguna.
Í útgáfuhófi 23. október klykkti ég út með þessum orðum: „Með því að flytja bókmenntir frá öllum heimshornum yfir á íslensku verðum við þátttakendur í heimsmenningunni. Við getum þá notið þessara gersema annarra landa án þeirrar tálmunar og truflunar sem tillært tungumál hefur í för með sér. Og þar sem smásagan er oft mjög nákomin höfundunum, hún er iðulega sjálfsprottið viðbragð við áhrifaríkri ef ekki átakanlegri reynslu, fáum við í gegnum hana huglæga innsýn í þessa menningarheima.“
Ritstjórar auk mín eru Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir.