Umsóknarfrestur um meistaranám í ritlist rennur út 15. apríl. Umsóknum þurfa að fylgja ritsýni sem gefi góða mynd af umsækjanda sem höfundi. Þau mega vera ljóð, smásögur, brot úr leikþætti, sannsaga eða hvaðeina sem umsækjandi telur lýsa sér; hámark 30 síður. Útgefnir höfundar sem óútgefnir eru velkomnir. Rétt er að hvetja umsækjendur til að vanda frágang.
Þriggja manna inntökunefnd, skipuð umsjónarmanni námsins og tveimur fulltrúm sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir, velur síðan úr innsendum umsóknum. Niðurstöður ættu að liggja fyrir upp úr miðjum maí.
Ritlist hefur verið kennd á meistarastigi frá 2011 og alls hafa hátt í hundrað manns stundað námið á þeim tíma. Á hverju ári eru teknir inn um 20 nýnemar. Útskriftarnemar okkar hafa gefið út fjölda bóka á undanförnum árum og unnið til eða verið tilnefndir til allra helstu bókmenntaverðlauna landsins.